Myndir ágústmánaðar

Já, loksins loksins loksins eru komnar myndir á þetta blogg. Það var kominn tími til að setja þær inn. Hingað til hef ég miklað það fyrir mér að setja inn myndir, en með ftp forritinu, þá er þetta ekkert mál. Læt meira að segja fylgja með myndbandið við lagið I touch myself. Mjög umdeilt lag, en samt jah ekkert svo gott. Bara hressandi. Hafði mikið fyrir því að finna þetta myndband.Sumsé - Myndir á myndasíðunni. Myndband á myndbandasíðunni. Aammm, sælir.Áfram Magni.

Búsetumót

Um helgina var ég á búsetumóti í Berufirði. Tilefnið var að um helgina síðastliðna voru liðin 100 ár frá því að langafi minn, Guðmundur Guðmundsson og langamma, Gyðríður Gísladóttir fluttu í kirkjubæinn Berufjörð í Berufirði frá Ánastöðum í Breiðdal.Mótið hófst á laugardeginum með göngu frá Ánastöðum í Breiðdal - yfir Berufjarðarskarð - að bænum Berufirði. Ég og pabbi slógumst í för og var gengið í einar 5-6 klukkustundir. Með í för var föngulegur hópur manna og hesta, sjálfssagt einir 40-50 á tveimur jafnfljótum og 5 hestar. Verð ég sérstaklega að hrósa elstu göngumönnum, Braga Gunnlaugssyni og Ásgeiri Hjálmarssyni (f. 1932), Óskari Gunnlaugssyni (f. 1938) og pabba mínum, Guðmundi Gunnlaugssyni (f. 1942). Þessir ágætu herramenn leiddu gönguna rösklega og voru með ýmsan fróðleik þess á milli.Þegar komið var að bænum var þar múgur og margmenni saman kominn til að fagna þessum tímamótum. Um kvöldið tók svo við hátíðardagskrá í stóru og miklu hátíðartjaldi. Þar var lesið uppúr bókum, farið með vísur og ljóð eftir Berfirðinga og sungið. Ég og Geiri vorum í einu söngteymi, en Jonni bróðir og Elvar sonur hans í hinu söngteyminu. Kalla þeir feðgar sig Krónufeðga, en sú lága upphæð sem þeir kenna sig við lýsir engan veginn þeim gæðum sem þeir eru prýddir á sviði tónlistar. Jonni bróðir er alveg frábær söngvari og Elvar sonur hans er alveg úrvals gítarleikari. Mér finnst að þeir ættu að heita allavega 500.000 krónu feðgar ef ekki meira. Hátindur kvöldsins var án efa lagið Gunnar Póstur, sem Haukur Morthens gerði svo frægt um árið. Þá sló Jonni fjórgangstakt við lagið og Gunnlaugur Bragi, náfrændi minn lék undir á harmonikku.Dagskrá kvöldsins lauk opinberlega kl. 22:00 um kvöldið, en inni í tjaldinu léku menn áfram af fingrum fram, töluvert frameftir nóttu.Dagskrá sunnudagsins hófst síðan kl. 12:00 á Berfirsku hangikjöti og uppstúf. Þetta var borið fram með rúgbrauði og rabarbarasafti. Enn var lesið upp úr bókum og farið með ljóð. Þá fékk yngsta kynslóðin að njóta sín í söng og leik í blálokin. Um 180 gestir voru á þessu móti þegar mest var og þykir mér það harla gott.Frábær helgi og skemmtilegt mót. Ég kvaddi fjörðin fagra með tárin í augunum.Myndir af viðburðum sumarsins, þ.á.m. búsetumótinu skal ég setja inn með kvöldinu.

Það sem fór í gegnum huga fólks sem fékk 10 verstu hugmyndir allra tíma

1. Já, miðað við fyrstu myndina, þá ætti Grease 2 að vera helvíti góð.2. Köllum hann Jar Jar Binks.3. Og þetta race mun heita Murlocs.4. Ég er viss um að þennan frídag munu allir verslunarmenn nýta sér.5. Ég er viss um að Fröken Lewinsky mun ekki segja neinum frá.6. Þeir hætta örugglega við að byggja álverið á Reyðarfirði ef við mótmælum nógu kröftuglega.7. Miðað við mína forsögu, þá fer ég örugglega ekki í bann fyrir að bíta í eitt eyra.8. Með því að höfða mál gegn Napster, þá komum við í veg fyrir ólöglega dreifingu tónlistar í framtíðinni.9. Já, mér líst vel á þetta. Theo Walcott á eftir að koma sér vel í keppninni.10. Keypti ég Watford? Á hverju var ég?

Rockstar: Supernova

Eins og flestum er kunnugt, þá er Borgfirðingurinn og gamli menntaskólafélaginn Magni Ásgeirsson að meika það feitt í Rockstar: Supernova. Síðustu nótt söng hann lagið Clocks með Coldplay. Kannski svolítið soft lag, en hann skilaði því vel. Drengurinn er að mínu mati kandídat í efstu 5 sætin a.m.k. Þeim sætum held ég að Dilana, Storm, Toby og Lukas deili með honum. Það eina sem er slæmt við framgöngu Magna er að ég óttast það að maður fái ekki lengur frímiða á böll með Á móti sól.Ég vildi gjarnan sjá einhver Pearl Jam lög í lagalistunum. Það er t.d. alltaf eitt Nirvana lag og af hverju ekki Pearl Jam? Eða meira Stone Temple Pilots og Foo fighters. Það er akkúrat svoleiðis sem ég sé Magna fyrir mér vera að syngja.Það er ákveðinn galli við að Gilby Clark og Jason Newsted séu í bandinu. Lög með þeirra sveitum eru auðvitað aldrei í boði í lagavalinu. Það væri frekar ósanngjarnt. Það sýgur frekar sverann, því flestallir rokkarar hafa gaman að GNR og Metallica.Rockstar er algjörlega málið, Idol er rusl. Áhorfstölur á Idol hafa hrapað um allan heim, að mér skilst. Idol: stjörnuleit verður t.a.m. ekki á dagskrá Stöðvar 2 í vetur. Því miður er einhver annar svipaður rusl-þáttur að fara í loftið í staðinn.Áfram Magni.Pæling: Af hverju er það alltaf þannig að þegar einhver keppandi er frá Íslandi í einhverri keppni, þá er hann samstundis kallaður The Iceman?

Helgin

Um helgina höfðum við það af að versla okkur til óbóta í IKEA. Þar kom úttektin sér vel sem Þóra fékk gefins um daginn. Þá fór ég í Byko og keypti næstsíðasta ljósið í kotið.Að setja upp ljósin var önnur saga. Á þriðja ljósi þurfti að bora hressilega í loftið. Þar kom Bosch borvélin hans Guðmundar í Sæbakka sér vel. En handlaginn er ég ekki og eftir þrjú stór göt í loftið voru 2 steinborar ónýtir. Annaðhvort er kallinn svona helöflugur að borvélin hefur ekki undan eða þá að kallinn er með 10 þumalfingur. Ég hallast svona að fyrri skýringunni, þó sú síðari sé reyndar líklegri.Sunnudagskvöldinu eyddi ég síðan á knattspyrnuvellinum, þar sem fótglímufélögin FC Moppa og Nings öttu kappi. Fór því miður svo að Nings hafði betur 2-0 og ég held ég sé búinn að eyðileggja á mér hnén varanlega. Hver þarf svosem á hnjám að halda?Pæling helgarinnar: Ef maður sem heitir Brjánn borðar mikið af hrísgrjónum, gæti hann verið uppnefndur Grjónn. Gefum okkur að Grjónn hafi ekki gengið á Guðs vegum á sinni ævi. Segjum að Grjónn látist úr elli og konan hans bregði á það ráð að handsama sál hans í poka og ætla með hana að gullna hliðinu til að freista þess að koma sál hans í himnaríki. Hugsum okkur að leikritið Gullna hliðið sé um Grjón þennan. Ef annefnið Grjónn fallbeygjist síðan eins og Brjánn. Þá er það Grjónn - um Grjón - frá Grjóni - til Grjóns.Markmið með pælingunni: Myndi hljómsveitin þá heita Sálin hans Grjóns míns?

Aftur til starfa

Jæja, þá er sumarfríinu lokið og vinnan tekin við. Ég mætti jafn náfölur til starfa og fyrir mánuði síðan þegar ég fór í fríið. Það voru svona 5 sólskinsdagar í fríinu á öllu Íslandi, þannig að tanið lét á sér standa.Í fríinu var ýmislegt brallað. Ég fór austur með frúnni til Thunder Bluff (A.K.A. Djúpavogs). Þar dvöldum við í nokkra daga ásamt því að skreppa til Egilsstaða (sem er orðin stórborg allt í einu) og Eskifjarðar. Undanfarin ár hafa mínir bílar alltaf bilað þegar ég fer til Egilsstaða og var árið í ár engin undantekning. Eftir vasklega viðgerðartilburði hjá mér og pabba komst skrjóðurinn í lag, þrátt fyrir einstaka elju Bílaneystinga í að útvega okkur vitlausa varahluti. Þóra hélt suður eftir hennar vikufrí, en ég dvaldi lengur og nörraðist með kauðmönnum frá Djúpavogi.Að veru minni lokinni á Djúpavogi lá leiðin í Skagafjörðin. Þar slógum ég og Þóra upp tjöldum á tjaldstæðinu í Bakkaflöt, ásamt Bylgju, Guðjóni, Siggu Fanney og Lísu. Þar var grillað, sungið, spilað víkingaspilið kubb (sem er snilld) og farið á hestbak. Útreiðartúrinn var algjör snilld, fyrir utan það að Þóra hentist af baki. Af einstakri hetjudáð stóð frúin upp og stökk samstundis á bak aftur. Skjóni minn lét hins vegar mjög vel að stjórn.Þessa einu og hálfu viku sem eftir lifði fríinu nýtti ég til að dytta að húsinu og má segja að sjaldan hafi jafn litlu verið áorkað á jafnlöngum tíma. Enda hef ég hvorki verið þekktur fyrir að vera laghentur maður né duglegur í svona stússi.Í vinnunni í gær gerði ég mjög lítið, enda er frekar erfitt að koma til starfa aftur eftir frí. Maður ætti eiginlega ekki að vinna meira en hálfan daginn svona fyrstu dagana eftir sumarfrí.Myndir frá fríinu koma síðar.

Sumarfrí

Það er ekki ofsögum sagt að vinnuálag undanfarnar vikur hafi gert mér erfitt fyrir og er það ástæðan fyrir engum bloggfærslum síðustu daga. Ástæðan er sú að við verðum að klára verkefnin fyrir sumarfrí, en þau voru bara of mörg. Kallinn er bara búinn að vera hrikalega öflugur á því og svo virðist sem verkefnin séu að klárast nú á föstudaginn. Þá kemst maður loksins í sumarfrí.Í fríinu ætlum við frúin að halda austur á land í óákveðinn tíma. Því miður fær hún ekki langt frí, bara eina viku. En það er skárra en ekki neitt. Það er löngu orðið tímabært að fara í kótilettukarlafrí út á land með frúnni. Ég segi ekki meir.Í júlí er einnig á dagskránni helgartjaldferð eitthvert út á land (fer eftir veðri) með fríðu föruneyti. Það verður eflaust hressandi.Í sumarfríinu ætlum við Jóndi að byrja á rafrænni hljómplötu, sem ber vinnuheitið "Maðurinn sem hét Hersir í fyrradag". Líklega verður það lokaheiti plötunnar. Við stefnum reyndar ekki á útgáfu í hinum efnislega heimi, en lögin verða væntanlega til niðurhals af alnetinu fyrir næstu jól. Í spjalli okkar Jónda í gær kom fram að við erum á svipaðri línu með þá músík sem við viljum senda frá okkur. Stefnan gæti komið mörgum sem mig þekkja á óvart.Við Jóndi erum ennþá nafnlaust band. Ég hef þá kenningu að nafnlaus bönd séu dauðadæmd fyrirfram, þannig að ég óska eftir tillögum að nafni (í kommentum). Síðast vorum við saman í bandi á Grunnskólaaldri. Vorum við þá í sveitunum Exxon og Paladin. Vegna tónlistarlegs ágreinings var ég rekinn úr hljómsveitinni sem síðan tók sér nafnið Sætar Sálir (enda hefði ég aldrei kennt mig við svo gay nafn). Ágreiningurinn hefur nú verið settlaður 11 árum síðar og verðum við svo að sjá til með framhaldið.

Breytingar og Roger Waters

Eftir tónleikana með Roger Waters (sem voru snilld btw), þá er ég breyttur maður. Þess vegna ætla ég að gera örlitlar breytingar á blogginu. Taka út þessar leiðinlegu skoðanakannanir og setja prófílinn minn í staðinn. Þennan prófíl gerði ég fyrir löngu síðan, en hef alveg gleymt að troða honum þarna inn. Það er nú ekki verra að fylgi ein ljósblá mynd af mér með. Vonandi fækkar ekki heimsóknum mjög mikið við það.Allavega, Roger Waters var í góðum fíling á tónleikunum. Hápunktarnir voru að mínu mati Us and Them - Any colour you like, The great gig in the sky, Sheep og Time. Shine on you crazy diamond var í styttra lagi fannst mér og hann átti erfitt með að syngja það sá gamli. Gæsahúð kom þó engu að síður. Uppklappið var bara sér kapítuli útaf fyrir sig. Þá tók hann Another brick in the wall og samfleytt Vera - Bring the boys back home - Comfortably numb. Ég var líka sérstaklega ánægður með það að á Dark side of the moon hlutanum var alveg samfleytt keyrsla eftir Money. Það var alveg sturlað. Ég er steinhissa á að Sjónvarpið skyldi ekki taka tónleikana upp. Sándið á þeim var alveg fáránlega gott, það magnaðasta sem ég hef heyrt. Það kom t.d. býsna vel í ljós í On the run. Maður hefur aldrei almennilega fílað þann hluta fyrr en bara núna.Þvílík upplifun. Nú er bara að koma Pink Floyd saman aftur. Ég hringdi í David Gilmour í gær og hann tók vel í það. Þeir voru ekki búnir að spila saman í 20 ár þegar þeir stálu senunni á Live 8 í fyrra. Nú er bara að fylgja því eftir.

Ekkert að þroskast og Roger Waters

Það þýðir ekkert að vera svona lélegur að bloggaÉg komst að því að ég er ekkert að þroskast. Fór á Xmen: The last stand. Eftir myndina hló ég mig máttlausan að manninum sem var Visual effects supervisor. Hann hét John Brund.Síðan var ég á skyndihjálparnámskeiði í fyrradag á vegum Nýherja. Þar var ein glæran sem fjallaði um flogaveiki og hvað gæti gerst þegar flogaveikur einstaklingur fær flogakast. Hann sumsé getur bitið í tunguna á sér og misst þvag. Síðan þegar kennarinn opnaði fyrir spuningar um þetta, þá datt mér ekkert annað í hug að spyrja um en "Gæti hann jafnvel misst saur?".Roger Waters í kvöld. See you on the dark side of the moon.

Eitt ár enn

Í dag er ég 27 ára. Það er frábært. Það var smá teiti hjá mér í gær. Það endaði með því að Björn Ingi Hrafnsson komst inn. Þó ekki í partýið, heldur sem borgarfulltrúi. Við hleyptum honum ekki inn þegar hann bankaði. Það er ekkert hræðilegt að vera 27 ára. Það styttist bara aðeins í gráa hárið og lægra sperm count.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband