Magic spil vikunnar #10

Vegna anna láðist mér að setja inn Magic spil í gær. Það kemur þá bara núna og það er kannski við hæfi, þar sem viðbjóðsþátturinn X-factor er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld.Þessi þáttur er sá leiðinlegasti sem er á dagskrá í íslensku sjónvarpi. Keppendurnir eru fínir og auðvitað alltaf gaman að horfa á flutning tónlistar í beinni útsendingu. Ég hef séð tvo svona þætti og ég get ekki neitað því að tveir meðlimir dómnefndarinnar fara óstjórnlega mikið í taugarnar á mér. Annar þeirra er Ellý. Ekki veit ég hvar þeir grófu þessa manneskju upp. Kannski hefur það verið hjá lýtalækninum sem var að reyna við heimsmetið í botox-ísetningu. Hinn aðilinn er Páll Óskar. Mér finnst Páll Óskar að mörgu leyti ágætur. Hann er góður söngvari og hefur talsverða þekkingu á tónlist. En, þegar hann fer að skjalla keppendur og þá aðallega Jógvin frá Færeyjum, þá er mér öllum lokið. Auðvitað segir enginn neitt, því hann á það á hættu að vera stimplaður sem hommahatari og þess háttar. En, ég sæi ekki fyrir mér Einar Bárðarson, sem situr í sömu dómnefnd, vera að tala um það í hverjum einasta þætti hvað ein stelpan væri sæt. Þetta er alveg fáránlegt. Ætli foreldrar mínir væru stoltir af mér ef ég væri í sjónvarpsþætti og gerði ekkert annað en að tala um það hvað einhver kvenmaður í sama þætti væri fallegur? Maður spyr sig. Magic spil vikunnar er því Páll Óskar.Til að skoða öll Magic spil er hægt að smella á MAGIC tengilinn í vafrastikunni fyrir neðan hausmyndina.

Alveg stórfurðulegur draumur

Stundum dreymir mig þannig drauma að ég verð eiginlega að leggja þá hér inn á vefdagbókina. Þá er ég ekki að óska eftir kommenti, heldur eingöngu til að ég muni þá sjálfur og hvernig aðrir túlki þá.Draumurinn var svona:Ég var staddur heima hjá mér að pakka niður í ferðatösku. Ég var að fara í eitthvað advanced bootcamp/herþjálfunarnámskeið á Dalvík af öllum stöðum. Það skal athuga að ég hef hvorki farið í bootcamp né herþjálfun, svo þetta er mjög undarlegt. Þóra skutlaði mér síðan á BSÍ og þaðan tók ég rútu á Dalvík. Hún kvaddi mig eins og ég væri að fara frá henni í mörg ár, en svo virtist samt sem hún hafi ýtt mér út í þetta.Þegar á Dalvík var komið, þá var farið að húma að. Á Dalvík hitti ég fyrir Einar Hróbjart, Ásgeir Ævar og Róbert Jóhanns. Þeir voru þá einmitt staddir á Dalvík, en ekki á námskeiðinu. Þeir voru að keppa í fótbolta með K.A. frá Akureyri um kvöldið. Ég gat ekki horft á leikinn, heldur þurfti ég að mæta á sérstakan fund vegna Bootcamp námskeiðsins. Fundurinn var nú ekki merkilegri en svo að þetta var sumsé eitthvað sérstakt "óhollustukvöld fyrir átökin". Mjög sérstakt.Síðar um kvöldið fór ég á röltið með einhverju fólki úr námskeiðinu. Við ætluðum að kíkja aðeins á æfingasalinn, en hann var eðlilega lokaður og læstur. En við urðum vör við einhverjar mannaferðir þarna inni. Er við kíktum á gluggan, þá sáum við að þarna voru Páll Magnússon, Útvarpsstjóri og Inga Lind úr Íslandi í dag ásamt einhverju fólki úr Nýherja sem ég veit ekki hvað heitir. Ekki gat ég betur séð en að Páll Magnússon væri að hafa mök við Ingu Lind og að fólkið úr Nýherja væri að taka ahtöfnina upp á myndband.Það er spurning hvort þessi draumur þýði eitthvað. Það eru þrír möguleikar í stöðunni.1. Ég er fársjúkur maður á geði.2. Inga Lind Karlsdóttir hefur störf á RÚV innan skamms3. Dalvíska kvikmyndasamsteypan gefur á árinu út myndina Útvarpsstjórinn og samkeppnisaðilinn - Erótísk spennumynd.

Fáheyrð en marghlustuð #9

Lag vikunnar er nú alveg á grensunni með að vera marghlustað. Ég held að fáir hlusti á þetta lag dags daglega. En um miðjan 9. áratuginn var sýnd í Ríkissjónvarpinu Brasilísk Telenovelas Sápuópera, sem bar nafnið Escrava Isaura á frummálinu. Á okkar ástkæru íslensku hét þátturinn Ambátt. Titillag þáttarins er fáheyrða en marghlustaða lag vikunnar, með engum öðrum en Dorival Caymmi. Ég held að lagið heiti Retirantes, þó ég sé nú ekki alveg viss. Jóndi fær miklar þakkir fyrir að muna hvað þátturinn hét á frummálinu. Lagið er nú ekkert sérstaklega gott, en vekur kannski upp aulahroll hjá mörgum.Smelltu hér til að hlusta á lagið.

Samgöngur, góðakstur og viðhorf

Alveg er ég búinn að fá mig fullsaddann af umræðunni um umferðarslys. Samkvæmt slysaskýrslu Umferðarstofu lést 31 í 28 bílslysum í fyrra. Í 13 tilfellum var of mikill hraði orsök slyssins og þar af var í 10 tilfellum um ofsaakstur að ræða.Ölvunarakstur var orsökin fyrir 10 dauðsföllum í fyrra.Þetta eru hræðilegar staðreyndir.Fólk á það til að tengja fjölda slysa við ófullnægjandi samgöngur. Talað er um að tvöfalda eina brautina, fjórfalda aðra og setja vegrið á þá þriðju. Undirskrifarlistar ganga manna á milli og allnokkrir pára nöfn sín þar á og jafnvel kennitölu. Þetta þoli ég ekki. Halda menn virkilega að góðir vegir komi í veg fyrir ofsaakstur og ölvunarakstur?Einhverju sinni á síðasta ári kom eitthvað æði yfir landann, þar sem hann sagði STOPP og ætlaði aldeilis að haga sér vel í umferðinni. Ég veit að heimskur hreykir sér hátt, en frá því að STOPPIÐ var í umræðunni hef ég keyrt á löglegum hraða á öllum vegum landsins. Ekkert hef ég hlotið þakklæti fyrir ef undanskilin er óskeind skítaboran frá bílstjórum sem finnst ég keyra "of hægt".Best væri ef bílstjórar tækju mið af samgöngum hér á landi og keyrðu á skikkanlegum hraða. Hér á landi eru vegirnir bara ekki góðir. Lausnin á þeim vanda er ekki að reyna að setja hraðamet.Lausn stjórnvalda er yfirleitt fólgin í því að auka eftirlit, hækka sektir og refsingar, svo ég minnist nú ekki á áróðurinn.Þá er mér spurn, af hverju er aldrei hægt að verðlauna í þessu landi. Hvers vegna get ég ekki sótt um ökurita í bílinn minn og fengið lækkuð bifreiða- og eða tryggingariðjöld fyrir góðakstur? Þessi tækni er til staðar, en það hefur hingað til enginn sýnt frumkvæði í þessa átt.Ég skora á stjórnvöld og/eða tryggingafélög að prófa þetta. Hver veit nema að þetta sé í bígerð? Vonandi.

Magic spil vikunnar #9 - Öfgaverndun og öfganýting

Það er alltaf frekar sérstakt að hlusta á þá sem eru með öfga. Til dæmis í spjallþáttum eins og Kastljósinu og Íslandi í dag, þegar verið er að ræða mál eins og stóriðju og náttúruvernd. Náttúruverndarsinnar virka stundum á mig eins og þeir haldi að stefna Ríkisvaldsins sé að virkja eins mikið og landið leyfir og nota rafmagnið í framleiðslu. Með öðrum orðum að koma fyrir á Íslandi eins miklu af virkjunum og álverum og mögulegt er. Einnig kemur fyrir að stóriðjusinnar blási á rök náttúruverndarsinna og haldi því fram að þeir vilji vernda allar þúfur á landinu.Oftast er það nú þannig í umræðunni að öfgarnir standa uppúr og hinn þögli meirihluti sé á þeirri skoðun að auðvitað verði að vera fjölbreytni í atvinnulífinu og að álver sé bara einn kostur - Ennfremur lítist þeim ágætlega á þann kost. Hinn þögli meirihluti viðurkennir líka að hann sé ekkert á því að það eigi að virkja allar ár í landinu.Þegar þessi orð eru rituð, þá eru nú ekki mörg álver í landinu - en umræðan um álver er frekar áberandi. Menn gleyma því einnig oft að vatnsaflsvirkjanir eru ágætis leið til að útvega rafmagn. A.m.k. voru þær einu sinni taldar mjög góður kostur.Öfgarnir eru því: Nýtingarstefna - VerndunarstefnaMagic the gathering hefur oft nýst mér vel til að glöggva mig á alvöru málsins. Í MTG eru lönd og umhverfi notuð til þess að búa til Mana (m.ö.o orku til að kasta göldrum). Þetta er býsna nálægt því sem tíðkast í alvörunni. Með hugviti notum við orkuna í landi og umhverfi til að umbreyta henni í orku sem við getum auðveldlega nýtt. Með röngum aðferðum er hins vegar hægt að spilla landi og umhverfi meira en góðu hófi gegnir, sem takmarkar bæði nýtinguna á því í framtíðinni og hefur skaðleg áhrif á lífríki jarðar.MTG myndi nálgast þessa tvö öfga með Magic spilum vikunnar, sem eru (eðli málsins samkvæmt) tvö þessa vikuna. Environmentalism og Utilitarianism.Til að skoða öll Magic spil er hægt að smella á MAGIC tengilinn í vafrastikunni fyrir neðan hausmyndina.

Fáheyrð en marghlustuð #8

AlohaEins og Steinn Steinarr orðaði það:Kvenmannslaus í kulda og trekkihúki ég volandi.Þetta er ekki, ekki, ekki,ekki þolandi.Kvenmannslaus hef ég verið frá því á sunnudaginn síðasta og verð fram á næsta sunnudag. Þóra brá sér út fyrir landsteinana með Helgu frænku sinni. Haft er eftir heimildarmönnum neytendasamtakanna að þær frænkur séu líklegar til að gefa hugtakinu "Að versla eins og vindurinn" nýja merkingu. Kallinn er því aleinn í kotinu, en búskapurinn ennþá með nokkrum sóma. Allir sem vilja koma í heimsókn mega gjarnan gera það.Fáheyrða en marghlustaða lag vikunnar er lag sem ég fullyrði að allir Íslendingar sem hafa sjónvarp heima hjá sér hafa einhverntímann hlustað á. Þetta er auglýsingastefið úr auglýsingu Símanns um Dæluna. Mjög skemmtilegar auglýsingar, þar sem fylgst er með hópi einhverra nörda og uppátækjum þeirra.Stefið sem leikið er í auglýsingunni er viðlag tónverksins Fascination með hljómsveitinni Human League. Human League gerði garðinn frægann á árum áður með lögum á borð við Don't you want me og Obsession.Smelltu hér til að hlusta á lagið.

Hvernig á að dansa á reifi

Stampa med LeroyÞetta er svona með því fyndnara sem ég hef séðhttp://www.youtube.com/watch?v=uPO3Q-bkbdo

Magic spil vikunnar #8

Einmitt það. Nú þegar korter er í kosningar, þá á auðvitað að þröngva alls kyns frumvörpum í gegn. Þetta auðlindafrumvarp var nú eiginlega orðið þreytt áður en það var lagt fram. Ég vona auðvitað innilega að jafnréttisfrumvarpið gangi ekki í gegn. Ekki það að ég sé eitthvað á móti jafnrétti kynjanna, síður en svo. Ég vil bara ekki láta einhverri launanefnd á vegum ríkisins í té bæði framkvæmdavald og dómsvald. Samkvæmt frumvarpinu, þá getur þessi launanefnd farið inn í fyrirtæki og krafist þess að laun séu gefin upp, ellegar sæti fyrirtækið fjársektum, sem ekki er hægt að áfrýja. Algjörlega ólýðræðislegt frumvarp í eðli sínu. Það hlýtur að vera hægt að ná fram jafnrétti kynjanna á einhvern annan hátt. Ég vona það a.m.k.Af því það er nú Austfirðingaball á morgun á Players, þá ákvað ég nú að skella inn einu magic spili, sem tengis mjög mikið Austfirðingi ársins. Magic spil vikunnar er Rock Star Supernova.Til að skoða öll Magic spil er hægt að smella á MAGIC tengilinn í vafrastikunni fyrir neðan hausmyndina.

Fáheyrð en marghlustuð #7

Fáheyrða en marghlustaða lag vikunnar er lagið Jack and Diane, sem kom út árið 1982. Höfundur lagsins er John Mellencamp. Þetta er svona týpískt lag sem er spilað á Rás 2 í hálftíma slottinu á eftir útvarpsfréttum og á undan sjónvarpsfréttum, milli 18:30 og 19:00. Nema það sé búið að breyta því. Allavega var þetta alltaf þannig þegar ég var yngri.Þetta lag er nú ekkert sérstaklega skemmtilegt, en það er mjög líklegt að flestir hafi hlustað einhverntímann á það, en ekki haft hugmynd um það hver flytjandinn væri. Þess þá síður löngun til að komast að því.Smelltu hér til að hlusta á lagið

Hlauptu, hlunkur, hlauptu

Chenqui.Haldið þið að maður hafi ekki bara skellt sér á fótboltaleik í gær. Ekki til að horfa á, heldur til að spila. Ekki er nú hlunkurinn í sínu allra besta formi. Sem betur fer, þá byrjaði ég á bekknum, en var síðan skellt inná í stöðu HÆGRI BAKVARÐAR, sem ég kann ekkert að spila. En þetta gekk nú allt saman og við uppskárum 4-0 sigur í æfingaleik Vatnaliljanna á móti Boutros Boutros-Ghali. Ekki fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, heldur liði sem heitir í höfuðið á honum. Ég spila sumsé með Vatnaliljunum í Utandeildinni í sumar og líst vel á. Það er heilmikill fótbolti í þessu liði. Það er kannski hálf-sorglegt að vera að leika í Utandeildinni, en maður verður víst að taka mið af hæfileikum og líkamlegu ástandi.Til að auka aðeins meira á nördaskapinn á þessu bloggi, þá hef ég ákveðið að búa til nýjan blogg-flokk á síðunni um Microsoft Excel. Ég veit að þetta hljómar alveg skelfilega. En, sem gríðarlega mikill notandi forritsins, (sem er btw það eina sem eitthvað er notadrjúgt í Office pakkanum) þá langar mig til að deila lausnum með fólki. Það eru ýmis vandamál sem hægt er að leysa með Excel. Það eru einnig mjög mörg add-on og tweak sem koma til greina til að hjálpa fólki. Svo ég er að hugsa um að gera þetta bara. Á mánudögum ætla ég mér að skella inn einhverri nýrri lausn. Jafnvel kemur til greina að leysa vandamál fyrir þá sem posta þeim (Rosalega líklegt, er það ekki?).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband