Djöfulsins snilld

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera stuðningsmaður Liverpool. Þá á ég við taugatitringinn sem fylgir gjarnan stórleikjum þeirra. Ég verð bara að segja alveg eins og er að svona leikir eins og í gær eru þeir sem stuðningsmenn muna alla tíð. Þó það sé erfitt að horfa á meðan á leikjunum stendur, þá eru þeir greyptir í huga manns.Liverpool áttu þetta fyllilega skilið. Þeir komu mjög ákveðnir til leiks og ætluðu að spila fótbolta, þrátt fyrir að mega ekki fá á sig mark. Þeir áttu fleiri færi og betri að mínu mati. Það var helvíti sárt þegar Kuyt skallaði í þverslá og síðan þegar hann skoraði mark, sem var dæmt af. Þeir voru mun meira með boltann og reyndu alltaf að skapa færi.Sumir virðast þó þrjóskast við. Moron-inho breytist seint. Það er eitt að vera kokhraustur, en það er annað að vera fífl. Að geta ekki viðurkennt að hafa mætt ofjörlum sínum segir bara mjög mikið um þennan mann.Mér persónulega finnst Chelsea liðið hafa spilað hundleiðinlegan fótbolta á seinni hluta þessa tímabils. Boltanum er neglt fram á Drogba. Sá drengur er helvíti sterkur og getur oft gert eitthvað við boltann. Þetta heppnast þó bara í svona helmingi tilfella. Meira að segja sjaldnar þegar góður varnarmaður er að dekka hann. Þetta minnir svolítið á drulluboltann sem Houllier var að spila á tímabili, þ.e. þegar Heskey var í liðinu og gat eitthvað. Drogba er bara svona 20 sinnum betri og besti leikmaður Chelsea á þessu tímabili. Ég ber bara enga virðingu fyrir honum, því hann er væluskjóða, sjálfur helvítis tuddi og dýfari í þokkabót.Þurfa Chelsea að eyða 500 milljörðum í viðbót til að geta spilað skemmtilegan fótbolta? Það ætti kannski að minna Mourinho á að stuðningsmennirnir, sem borga fúlgu fjár fyrir ársmiðann, koma til þess að sjá fótbolta.

Kolbrún Halldórsdóttir dissaði mig

Fulltrúar stjórnmálaflokkana hafa undanfarið verið að kíkja í heimsókn til stærri fyrirtækja. Mitt fyrirtæki, ParX, er með HQ í Nýherjahúsinu, Borgartúni 37. Ekki undarlegt, þar sem við erum dótturfyrirtæki Nýherja. Kolbrún Halldórsdóttir kom í heimsókn í matsalinn gær fyrir hönd vinstri grænna, ásamt einhverri annari konu sem ég veit ekki hvað heitir (Fáfróður, eða?)Jæja, Kolbrún kom að borðinu okkar og ég fór umsvifalaust að tala við hana. Í gegnum tíðina hef ég hvorki verið skoðanabróðir hennar, né venslaður á nokkurn annan hátt á pólitíska kortinu. Við fórum að ræða umhverfismál. Ég tjáði henni þær skoðanir mínar að það væri fásinna að berjast sérstaklega gegn virkjunum og stóriðju á Íslandi. Eins og áður hefur komið fram, þá eru fáar þjóðir jafn umhverfisvænar og Ísland. Ein eða tvær virkjanir í viðbót og svipaður fjöldi verksmiðja hérlendis mun ekki hafa stór áhrif á heiminn á meðan þjóðir eins og Kína og Bandaríkin nota kol, olíu og kjarnorku til að búa til rafmagn fyrir ofurverksmiðjur sínar. Þessar þjóðir hafa beinlínis aukið mengun jafnt og þétt á síðustu árum. Ég spurði Kolbrúnu hvort væri ekki miklu nær að stuðla að hnattrænni umhverfisstefnu og nefndi þar Kyoto bókunina sem dæmi. Merkilegt nokk, hún var sammála mér. Hnattræn umhverfisstefna með markmiðssetningu til framtíðar var mitt innlegg inn í þessa umræðu.Síðan þegar ég ætlaði að fara að tala meira við Kolbrúnu, þá sneri hún sér frá mér og fór að tala við mann á næsta borði. Ég og mínir samstarfsmenn vorum ekki lítið hneykslaðir. Þar sem við vorum allir búnir að ljúka við hádegisverðinn, þá stóðum við bara upp og fórum. Þegar Kolbrún síðan sá okkur fara, þá sagði hún bara "Gangi ykkur vel". Við þökkuðum fyrir það.Kolbrún! Regla nr. 1: Ekki dissa þá sem hafa áhuga á að tala við þig. Örugg leið til að missa atkvæði.Ég hefði kannski átt að segja henni að ég væri í hennar kjördæmi.

Til hamingju mamma

Hrönn er kona Jónsdóttir er býr á Djúpavogi. Er það mjög mæt og skemmtileg kona, sem á afmæli í dag. Ég vona að hún eigi góðan afmælisdag og fyrirgefi mér það að gjöfin komi kannski aðeins of seint. Það er svona að eiga afmæli á laugardegi.

Af hverju ekki kosningabarátta með Zero kjaftæði - Magic spil vikunnar #13

Maður spyr sig.Af hverju þarf Ríkisstjórnin endilega að vera með hræðsluáróður? Þeir segja yfirleitt að þeir megi ekki til þess hugsa að vinstrimenn komist til valda. "Hvað verður þá um hagvöxtinn?". Það er eins og vinstrimenn hafi aldrei verið í stjórn á hagvaxtarskeiði eða á tímum kaupmáttaraukningar.Af hverju þurfa vinstrimenn endilega að segja að núverandi hagvaxtarskeið og kaupmáttaraukning sé blekking? Ennfremur, af hverju halda þeir því fram að fólk lepji beinlínis dauðann úr skel?Ég hef engann áhuga á svona áróðri. Ég hef meiri áhuga á málefnunum. Hvað snúast kosningarnar um að þessu sinni? Fyrir mér eru 3 atriði sem standa uppúr (ekki í neinni sérstakri röð).1. Umhverfismál. Ég nenni ekki að hlusta á frambjóðendur gaspra um þessi mál. Sumir þeirra virðast ekkert vita hvað þeir eru að tala um. Ég vildi gjarnan sjá flokk sem myndar stefnu byggða á markmiðum í umhverfismálum í hnattrænu samhengi, ekki bara á Íslandi.2. Heilsa. Bretar spáðu því á dögunum að árið 2010 verði 33% karla og 28% kvenna of feit. Ég veit ekki hvar Íslendingar eru staddir í dag, en ég hugsa að þetta sé að fara á hinn versta veg. Ég vil sjá einhverja framtíðarstefnu í þessum málum einnig. Bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu. Það er ekki nóg að vera með áróður. Það þarf að finna leiðir til að gera öllum kleift að stunda heilbrigt líferni.3. Hugvit. Horfum aðeins til hugbúnaðarfyrirtækisins CCP gaming, sem bjó til fjölspilunarleikinn EVE Online. Fyrirtækið er í 60. sæti yfir stærstu fyrirtæki Íslands og mun eflaust fikra sig ofar á næstunni. Nú er bara komið að því að við getum farið að flytja út þekkingu. Ég vil sjá einhverja framtíðarstefnu á sviði hugvits.Það eru auðvitað margir aðrir málaflokkar sem þarf að reka. Ég hef bara ekki áhyggjur af þeim eins og er, sem þýðir kannski að það er margt sem er í góðu lagi. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að tala um þetta skítakvótakerfi. Því verður ekki breytt mikið héðan af. Ofangreind mál eru þess vegna stærstu málin í mínum huga.Að lokum þætti mér gaman að heyra einhvern í stjórnarandstöðunni segja að núverandi ríkisstjórn hafi staðið sig ágætlega, en að betur megi fara. Um leið og skítaáróðurinn byrjar, þá hætti ég að hlusta. Þetta á líka við um stjórnarflokkana. Um leið og hræðsluáróðurinn byrjar, þá missa þeir athygli mína.Magic spil vikunnar er í takt við þessar hugleiðingar. Það er svokallað Split card, sem ber nafnið Governance/Opposition, eða stjórnun/andstaða. Split spil virka þannig að þegar því er spilað út, ræður eigandi þess hvora hliðina hann notar.Til að skoða öll Magic spil er hægt að smella á MAGIC tengilinn í vafrastikunni fyrir neðan hausmyndina.

Magic spil vikunnar #12 - A fire downtown

Það hafa nú aðallega tvö mál verið í fréttum undanfarna 2 daga, þ.e. bruninn niðri í bæ og morðinginn í Virginíufylki í Bandaríkjunum, Cho Seung-hui. Jú og auðvitað Ísbjörnin Knútur, sem fékk víst einhverja morðhótun senda í pósti. Knútur þessi er nú reyndar bara húnn, en það er einhver sem ekki virðist vera sáttur við hann. Það er ekki á hverjum degi sem ísbjörn fær morðhótun.En að brunanum niðri í miðbæ. Það er auðvitað leiðinlegt þegar gömul hús brenna. Mig minnir einhvernveginn að annað húsið hafi verið reist á 18. öld og hitt snemma á 19. öld. Mér finnst nú eiginlega að svona gömul hús eigi að vera söfn, en ekki veitinga- og skemmtistaðir.Bruninn niðri í miðbæ minnir mig eina mestu misheyrn sem ég hef nokkurn tímann vitað. Hver man ekki eftir laginu The Final Countdown með sænsku hljómsveitinni Europe? Einhverntímann þegar við vorum að æfa fyrir þorrablót Menntaskólans á Egilsstöðum, þá fór einhver í nefndinni að syngja "There's a fire downtown". Magic spil vikunnar er sumsé A Fire Downtown.Til að skoða öll Magic spil er hægt að smella á MAGIC tengilinn í vafrastikunni fyrir neðan hausmyndina.

Lag vikunnar með Guiro

Mér hefur verið nokkuð hugleikið ákveðið hljóðfæri uppá síðkastið. Það er hljóðfæri sem nefnist Guiro. Ég veit ekki hver opinbera Íslenska þýðingin er á þessu hljóðfæri, en stundum hefur þetta verið kallað brestabretti. Hljóðfærið er holt að innan og hrufótt að utan. Til að leika á það er lítill tréstautur dreginn eftir hrufunum og myndast þannig skraphljóð. Þegar ég var lítill, þá hélt ég alltaf að verið væri að spila á greiðu.Þetta hljóðfæri er t.d. notað í Lagi vikunnar, en það er Oye como va með gítarsnillingnum Santana. Lag sem allir hafa heyrt, en fáir hafa kannski gert sér grein fyrir mikilvægi guiro hljóðfærisins í laginu. Hlustið vel á Guiro tilþrifin.Smelltu hér til að hlusta á Oye como va.Shit hvað það er kviknað í niðri í miðbæ.

I don't care if Monday's blue

Mikið agalega hef ég gaman af Norræna Eurovision þættinum. Þáttur þessi hefur verið á dagskránni síðustu 3 ár. Einhverra hluta vegna slysaðist ég til að horfa á hann árið 2005 og fannst hann hrikalega skemmtilegur. Miklu skemmtilegri en keppnin sjálf. En það hafa verið batamerki á keppninni undanfarin ár. Þetta er ekki jafn viðbjóðslega hallærislegt low-budget Euro pop prump kjaftæði. Það er svona aðeins meiri rokktaktur í öðru hvoru lagi. Kannski getum við þakkað Wig Wam og Lordi fyrir það. Eiríkur rauði stendur vaktina fyrir okkar hönd með miklum sóma, þrátt fyrir að vera flytjandi. Eini maðurinn í heiminum sem getur haldið kúlinu á norsku.Og meira af Íslendingum á frændþjóðagrundu. Margan hefur eflaust rekið í rogastans þegar Steini ræsti veglega bloggsíðu, þar sem daglegu lífi er lýst í máli og myndum. Gott hjá þeim gamla. Mjög gaman að fá fréttir og myndir af vinum á erlendri grundu. Þó hittir maður þá bræður Steina og Bangsa stundum í sýndarheiminum Azeroth. Skilst mér að þeir eyði ófáum stundum þar. Slóðin á Steinablogg er www.123.is/brackus.

Magic spil vikunnar #11 - Börn fræga fólksins

Í síðustu viku var Laddason valinn fyndnasti maður Íslands. Eftir því sem ég hef heyrt, þá hefur val hans verið mjög svo umdeilt, því sögur herma að margir keppendur hafi verið mun fyndnari en hann. Laddason kom síðan fram í Kastljósi og lýsti því yfir að hann vildi ekki vera kallaður sonur hans Ladda, heldur bara Þórhallur. Drengurinn á greinilega margt ólært í bransanum, því yfirlýsingar sem þessar hafa gjarnan þveröfug áhrif.Fyrir nokkrum dögum var Bubbadóttir í slagsmálum í Keiluhöllinni. Ekki nóg með það, heldur voru þessi slagsmál tekin upp á myndband. Bubbadóttir hefur ennþá ekki gefið út neina yfirlýsingu um að hún vilji ekki vera kölluð dóttir hans Bubba, en maður bíður spenntur.Það er spurning hvort Laddason og Bubbadóttir taki ekki Mugison sér til fyrirmyndar. Mugison er listamannsnafn Arnar Elíasar Guðmundssonar og ekki ber á öðru en sá ágæti drengur sé stoltur af faðerni sínu. Nafnið segir allt sem segja þarf, Mugison er sonur hans Muga.Það eru margir sem halda það að Laddason og Bubbadóttir séu saman, en það er ekki rétt.Magic spil vikunnar er Celebrity OffspringTil að skoða öll Magic spil er hægt að smella á MAGIC tengilinn í vafrastikunni fyrir neðan hausmyndina.

Fáheyrð en marghlustuð #11

Já sælinú.Mörgum finnst leiðinlegt að mæta aftur í vinnu eftir frí. Ekki mér. Páskafrí er þó mitt uppáhaldsfrí. Það er mun stöðugra en jólafríið (þ.e. þegar maður er ekki í skóla), alltaf 5 dagar. Jólafríið á það til að vera stutt. Stundum bara tveir dagar. Umstangið í kringum páskafríið er líka mun minna. Það þarf ekki að snúa öllu við í þrifum, maður gerir sig ekki gjaldþrota við gjafainnkaup og það þarf ekki að baka 30 sortir af smákökum. Það eina sem þarf að kaupa er nokkrar steikur og páskaegg.En páskafríið mitt fór að þessu sinni mestmegnis í að jafna mig eftir aðgerðina. En, það er samt fínt að mæta aftur í vinnu eftir smá frí. En það skrítna við svona mánudagsfrí er það að maður tapar einum virkum degi. T.d. fannst mér vera mánudagur í gær og í morgun var ég alveg með það á hreinu að það væri þriðjudagur. En sá ágæti dagur er nú horfinn og kemur ekki aftur fyrr en í næstu viku. Þar komum við að lagi vikunnar, Tuesday's gone. Lag vikunnar hafa eflaust allir heyrt, en ekki allir áttað sig á því hver flytjandinn væri. Það er hin geðþekka hljómsveit Lynyrd Skynyrd, sem gerði garðinn frægastan á 8. áratugnum. Aðallega með lögum á borð við Sweet home alabama og Free bird. En lag vikunnar er eins og áður sagði Tuesday's gone.Smelltu hér til að hlusta á Tuesday's gone.

Endajaxlataka og lag vikunnar

Jæja, þá fór maður í endajaxtatöku í gær. Fór til kjálkaskurðlæknisins Sigurjóns Ólafssonar á Grensásvegi. Verð ég að segja alveg eins og er að ég mæli virkilega með þessum lækni. Alveg frábær læknir og með gott starfsfólk þarna. Þegar maður fær góða heilbrigðisþjónustu, þá er maður ánægður.Þrátt fyrir það er sársaukinn töluverður, enda var um massastóra jaxla að ræða. Það voru sumsé teknir jaxlar í efri og neðri góm hægra megin.Fyrsta myndaalbúm ársins á þessu bloggi hefur litið dagsins ljós og eru þar bólgumyndir af mér og síðan af jaxlinum (sem ég fékk að eiga). Sjá nánar hér.Í þessari viku brýt ég aðeins uppá þetta með lag vikunnar. Lagið þessa vikuna er alls ekki fáheyrt. Ég veit ekki hversu marghlustað það svo sem er í þessum flutningi.Lagið er Þú verður tannlæknir í flutningi Ladda. Mér fannst það bara eiga svo vel við.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband