Hálskirtlar teknir á föstudag

Síðustu svona 2-3 mánuði hef ég varla getað verið úti án þess að fá hálsbólgu. Þetta hefur haft þær afleiðingar að ég þurfti að hætta að æfa fótbolta með ÍH (sem gekk btw bærilega), hætta í hlaupaklúbbi Nýherja og hætta að spila fótbolta úti. ERGO, kallinn hefur verið að bæta á sig, það eru alveg hreinar línur. Ræktin dugar mér ekki alveg, ég verð að komast út líka. Andremman úr mér hefur líka verið eins og úr iðrum helvítis síðasta árið og hroturnar hafa verið þannig að Þóra er nú að leita sér að eyrnatöppum.Hálskirtlarnir verða teknir á föstudaginn. Fólk hefur verið að segja mér hryllingssögur af þessari aðgerð. En ég er nú stór strákur og bjarga mér. Mér skilst að maður lifi nánast eingöngu á frostpinnum vikuna eftir svona aðgerð. Það er í góðu því frostpinnar eru ágætir. Röddin fer líka til fjandans. Það er svosem ágætt, því ég tala alltof mikið. Verst er að þurfa að missa úr vinnu. Það verður bara að hafa það. Maður græjar bara VPN tenginguna í neyð.

Skrítnar draumfarir einu sinni enn

Það á ekkert að linna draumförum mínum. Núna dreymdi mig í nótt að ég hefði sagt starfi mínu hjá ParX lausu og tekið að mér ristjórn Vikunnar. Það er skemmst frá því að segja að ég var mjög lélegur ritstjóri þessa kvennablaðs í draumnum. Ég mætti í vinnuna tvo daga í viku. Skrifstofa Fróða var þannig upp sett að öll tímaritin voru í sama húsnæði. Það vildi svo skemmtilega til að ég mætti í vinnuna á útgáfudegi allra blaðana. Þá var allt í geðveiki og allir að reyna að koma pésunum út. Ég var samt sem áður hinn rólegasti og sagði bara að þetta helvítis kellingablað þyrfti ekkert að koma út oftar en einu sinni í mánuði. Þvílíka ruglið.

Microsoft Sam með komplexa

Prófiði að fara í Start - Programs - Accessories - Accessibility og Síðan Narrator. Narrator er forrit fyrir sjónskerta og jafnvel sjónlausa til að vita hvað er á skjánum þeira. Hér er um að ræða talgervil sem les það sem þú skrifar. Röddin hefur gjarnan verið kölluð Microsoft Sam. Minn Microsoft Sam er með einhverja komplexa og ætlaði að skrifa bréf til Dr. Ruth Westheimer, kynlífssálfræðingsins kunna, og biðja hana um hjálp. Fyrst bað hann mig um að lesa bréfið og gefa sér komment á það.
Bréfið er hér.

Formsatriði og tálbeitur

Það var ekkert nema formsatriði að Liverpool ynni nú Manchester loksins í bikarkeppninni. Liðin hafa mæst tvisvar áður á leiktíðinni og mínir menn sáðu ágætlega í leikjunum tveimur, en engin var uppskeran. Þannig að þessi sigur var nú að mínu mati eitthvað sem þeir áttu nú inni.Annað formsatriði var undankeppni Eurovision. Ég held að þjóðin hafi heldur betur sagt skoðun sína á hvaða lag (og hvaða flytjanda) þeir vilja sjá fyrir Íslands hönd. Ég er hins vegar farinn að þreytast á æðinu um Silvíu Nótt. Ég held að ég hafi varla sest að matarborði undanfarnar vikur án þess að hún sé þungamiðja umræðunnar.Í fréttaskýringarþættinum Kompási á Stöð 2 í gærkvöldi var sagt frá tilraun tveggja fréttamanna, þar sem þeir settu auglýsingu inná einkamál.is og þóttust vera 13 ára stelpa sem vildi kynlíf. Rúmlega 80 svörum seinna komu þeir á stefnumóti milli fjögurra aðgangshörðustu karlmannana og þessarar tilbúnu stúlku. Sýnt var nánar frá tveimur körlum sem bitu á agnið. Annar þeirra beið inní bíl á bílastæði eftir stúlkunni þegar fréttamenn Kompáss komu að og spurðu hann hvort hann hefði gert svona áður. Hinn sat á bekk á Ægissíðunni (að mér sýndist) og hafði þá stúlkan (sem stóð sig vel í hlutverki sínu) nýverið yfirgefið hann. Sá gaur var ekki nema 64 ára, jafngamall og pabbi minn. Hann ætlaði semsagt virkilega að fara á 13 ára stelpu. Sjálfur sagðist hann eiga börn. Maður á ekki orð. Hann var líka ekki alveg að halda kúlinu þegar fréttamennirnir böstuðu hann. Þá sagðist hann vera að gera á þessu rannsókn og þess háttar. Hann vildi ekki gefa upp fyrir hvern eða hverja hann væri að gera þessa rannsókn. Það var auðvitað bara undankomuleið. Það er algengt að þegar um skipulagðan glæp er að ræða, þá hafi glæpamenn undankomuleið. Í þessu tilviki, þá hafði maðurinn tekið sér frí úr vinnu. Það er alveg augljóst hvað hann ætlaði sér. Svona hegðun er sjúk og hraksmánarleg. Um þetta spyr maður eins og um Satanistafélagið og múslimana sem eru að myrða fólk vegna skopmynda af Múhameð spámanni: HEFUR ÞETTA FÓLK VIRKILEGA EKKERT BETRA AÐ GERA EN ÞETTA?

Fyrsta bisnessferðin

Er í Danmörku í minni fyrstu plebba-bisness-ferð. Það er stuð. Er á jakkafötunum að babla á ensku setningar eins og "Our challenge is to authoritatively leverage existing performance based opportunities so that we may globally engineer parallel services because that is what the customer expects". Vorum á stanslausum fundum í gær. Komst í 2 verslanir áður en allt lokaði. Greip bara einhverjar vörur. Forvitnilegt að sjá hvað það verður. Tókst ekki að kaupa nein eiturlyf. Fór samt í verslunarkeðjuna Fötex og spurði "Har du narkotikker?". Stúlkan svaraði "Nej, det har jeg ikke for noget". Það þýðir á íslensku "Áttu eitthvað kex?". "Nei, við lánum ekki símann". Einhverjir samskiptaörðugleikar. Ég hitti Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra. Hann var í stuði. Hitti líka Kim Larsen og Olsen bræðurna. Þeir voru ekki í jafn miklu stuði. Borðaði í morgunmat rödgröd með flöde og leverpostej. Það var ógeðslegt. Geta baunarnir ekki aulast til að gera alvörumat eins og skyr? Sennilega ekki, enda eru þeir ekki nálægt því jafn fit og við Íslendingar. Kem aftur heim í kvöld. Er að skrifa þetta með miklu hraði í kaffihléinu. Kaffið í IBM blokk 4 í Lyngby bragðast eins og sóttdauð, rotnuð rotta, marineruð í hýenuælu. Kaffivélin heitir líka Opus Ho.
BTW, ég er ekki búinn að óska neinum Dana til hamingju með árangurinn á HM í handbolta. Ég gaf þó út þá yfirlýsingu í gær að ég ætlaði að gefa Dönum 0 stig í Eurovision. Það var flestum sama um það. Best að fá sér kaffi.

Harði diskurinn minn hrundi

Einn af hörðu diskunum í vélinni hjá mér hrundi. Ég er alveg í rusli. Þar fór ÖLL tónlistin mín á einu bretti. Tónlistin mín var by the way um 120 gb. Íslenskt, erlent og sumt mjööööög sjaldgæft. Einnig fóru allir lost þættirnir og meira af þannig snilldarþáttum. Ég mun taka við samúðarskeytum í kommentunum hér að neðan.
Þetta kennir manni að taka backup af gögnunum sínum.

Ógeð á IDOL eftir tvo þætti

Nú síðustu tvö föstudagskvöld hafa aðstæður verið þannig að ég hef þurft að sitja yfir IDOL stjörnuleit á Stöð 2. Það er nokkuð gaman að horfa á krakkana syngja, það er ekki málið. En ég held að framleiðendurnir ættu að hugsa um að fara að biðja Pál Óskar um að hætta þessum homma-athugasemdum. Nú segja allir "Ojj, Þorkell er svo ömurlega fordómafullur". Nei, þetta snýst ekki um það. Ef Bubbi væri að koma með tvíræðnar athugasemdir við stelpurnar, þá myndu allir skamma hann fyrir það. Þetta gengur ekki, það eru börn að horfa á þetta, stærstur hluti áhorfenda eru börn.
Þátturinn væri mjög skemmtilegur ef dómnefndin væri ekki svona leiðinleg og Simmi og Jói eru virkilega að valda mér mikilli ógleði. Ég er svo hrottalega leiður orðinn á þeim að það er ekki sniðugt. IDOL-stjörnuleit er að þessu leyti bara ekki nógu skemmtilegt svo að ég sé hangandi yfir því. Og annað, þetta atkvæðakerfi er bara rugl. Það sér maður augljóslega á því hverjir detta út úr keppninni. Tinna átti að detta út síðast og hvað þá Bríet. Maður á ekki að komast upp með að gleyma textanum í miðju lagi og fara svo bara að gaula eitthvað. Bölvað rugl. Ég er að horfa á þetta núna. Þetta byrjaði klukkan hálf-níu og atkvæðagreiðsluþátturinn er ekki búinn fyrr en klukkan ellefu. Að hanga yfir þessu drasli svona lengi er að mínu mati alltof-alltof mikið.

Háðfengnir Kleyfhugar

Sannleikurinn um Silvíu nótt og fyrirrennara hennarPersóna að nafni Silvía Nótt birtist fyrst á öldum ljósvakans á síðasta ári, þegar þátturinn Sjáumst með Silvíu Nótt fór í loftið á Skjá Einum. Ég var svo heppinn að sjá fyrsta þáttinn með henni, en það var í byrjun síðasta sumars. Í fyrstu virkaði þetta eins og léleg tilraun einhverrar ignorant og illa að máli farinni gelgju til að vera með sjónvarpsþátt. Fljótlega sá ég þó að hún gæti ekki verið að meina þetta. Þetta hlyti að vera plat. Það reyndist vera rétt til getið hjá mér. Silvía Nótt er Kleyfhugi söng- og leikkonu að nafni Ágústa Eva Erlendsdóttir. Persónan Silvía Nótt gæti verið afkvæmi Paris Hilton og RuPaul. Að hennar mati er hún mesti töffari Íslands og jafnframt hæfileikaríkasta og fallegasta stúlkan á skerinu. Hún þekkir allt rétta fólkið og er með allt sitt á hreinu. Efnishyggjan og útlitið er þó aðalmálið hjá henni, þrátt fyrir að hún skarti miklum hæfileikum. Með öðrum orðum má segja að Silvía Nótt standi fyrir eiginlega allt sem er rangt í þjóðfélaginu. Útlitsdýrkun, frægðardýrkun, efnishyggju, grunnhyggni og lélegt málfar. En mér finnst Silvía Nótt vera þrælskemmtileg.Um kleyfhuga
Kleyfhugar eru svo sannarlega ekki nýjir af nálinni í fjölmiðlum. Í fjölmiðlafræði er þetta kallað satirical alias (háðfenginn kleyfhugi). Ég biðst afsökunar á Íslensku þýðingunni.Auðvitað er margt jákvætt og neikvætt við kleyfhuga, eins og flest önnur fyrirbæri. Eitt eiga þeir nánast allir sameiginlegt að þeir eru mjög umdeildir og þannig verður fólkið á bakvið þá mjög umdeilt í kjölfarið. Oftar en ekki er deilt á hvers konar áhrif þessar persónur hafa á börn og unglinga.Meginstyrkur (og kannski veikleiki) Kleyfhuga er að þeir geta sagt og gert nánast það sem þeir vilja. Þeir þurfa ekki að svara fyrir það ef þeir ganga of langt og geta því einfaldlega sagt að þetta sé allt uppgerð. Þetta eru ekki skoðanir þeirra, heldur einhverrar persónu sem þeir hafi búið til.Þeir sem ?leika? kleyfhugana eru ef til vill eins og fjórða víddin í fjölmiðlum. Það er einhver á bakvið persónuna sem t.d. er að taka viðtal, en viðmælandinn er raunverulegur. Þannig er viðmælandinn alltaf að taka þátt í einhverskonar atriði, þó hann komi fram sem hann sjálfur. Annars væri mjög gaman að sjá Silvíu Nótt taka viðtal við Ali G.Þekktir kleyfhugarSá fyrsti sem ég komst í kynni við var Dame Edna, persóna leikinn af ástralska gamanleikaranum Barry Humphries. Dame Edna var með spjallþátt sem sýndur var í sjónvarpinu á 9. áratugnum og varð mér það strax ljóst að þetta var einhverskonar kleyfhugi. Síðar meir lék Dame Edna í gamanþáttunum um Ally McBeal. Barry Humphries var ekki skrifaður fyrir hlutverkinu, heldur Dame Edna. Þetta þótti mönnum stórskrítið.Söngvarinn og lagahöfundurinn David Bowie var Ziggy Stardust í nokkur ár. Hann samdi tónlist sem Ziggy Stardust og kom einnig fram sem Ziggy Stardust. Þessum kafla í lífi hans lauk síðan nánast uppúr þurru og David Bowie kom aftur í ljós.
Gamanleikarinn Andy Kaufman brá sér oft í hlutverk Tony Clifton, hálf-mislukkaðs og hrokafulls Broadway söngvara. Lengi vel vissu menn ekki að Tony og Andy væru sami maðurinn, því dulargervið var mjög gott. Síðan þegar menn töldu sig vita að um Andy væri að ræða, þá bókuðu þeir Tony Clifton til að skemmta því hann var ódýrari kostur en Andy sjálfur. Andy Kaufman sendi þá bróður sinn Michael, eða vin sinn Bob Zmuda til að leika Tony Clifton og sagan segir að eitt sinn hafi Andy Kaufman og Tony Clifton verið saman á sviði. Þá fyrst blekkti Andy áhorfendur, eins og hans húmor gekk mikið út á.
Söngvarinn Brian Warner er lítt þekktur meðal almennings, en hans kleyfhugi er Marilyn Manson. Brian kemur þó yfirleitt fram sem Marilyn Manson, þannig að hugsanlega er hér um meira en einfaldan kleyfhuga að ræða. Þetta er meira svona sviðsnafn.
Söngvarinn Prince var með aðra útfærslu á þessu. Prince var skírður Prince Rogers Nelson af foreldrum sínum, þannig að sviðsnafn hans er ekki til komið af tómum hégóma. Hins vegar setti hann á svið sína eigin jarðarför árið 1993, þegar hann hætti að nota nafnið Prince og gekk undir nafninu ?The artist formerly known as Prince?. Árið 2000 tók hann Prince nafnið aftur upp. Gárungarnir voru fljótir að gefa honum nafnið ?The artist formerly known as the artist formerly known as Prince?.
Grínistinn Sacha Baron Cohen hljómar kannski ekki kunnuglega, en kleyfhugi hans, Ali G, ætti hins vegar að gera það. Ali G var mjög vinsæll og umdeildur í Bretlandi fyrir þáttinn The Ali G show og síðar myndina Ali G indahouse. Persónan Ali G var skemmtileg samsetning af frekar heimskum, ignorant, fordómafullum, illa að máli förnum breta sem hélt að hann væri svartur (eða vildi það helst). Talsmáti hans var skemmtileg samsetning af bresku slangri og ghetto slangri svartra bandaríkja- og jamaíkubúa.
Rapparinn Erpur Eyvindarson var á tímabili með mjög áhugaverðan þátt á Skjá Einum fyrir nokkrum árum síðan, sem var að miklu leyti skopstæling á þætti Ali G. Þar kom Erpur fram sem Johnny Naz (Johnny National). Þetta var mjög umdeildur þáttur, eins og oft verður þegar kleyfhugar koma fram.
Útvarpsmaðurinn Andry Freyr Viðarsson, sem nú er annar tveggja umsjónarmanna útvarpsþáttarins Capone á útvarpsstöðinni X-Fm, var lengi vel á Xinu 977 umsjónarmaður þáttarins Freysi. Þar var samnefndur Kleyfhugi hans að störfum, sem var mjög umdeildur fyrir hispurslausar skoðanir, sprell og gamanmál. Margt af því þótti fara býsna langt yfir strikið.

Fálmarinn mættur aftur

Guð minn almáttugur. Robbie Bernard Fowler er mættur aftur til leiks með Liverpool Football Club. Ég er eiginlega við það að springa úr gleði. Það má vel vera að hann sé orðinn gamall, það má líka vel vera að hann sé búinn með sín bestu ár, en gulldrengurinn er kominn aftur heim. Þarna á hann heima og þarna vil ég sjá hann. Ég hef alltaf sagt að Robbie Fowler er miklu, miklu meiri knattspyrnumaður en nokkurn tímann Michael Owen. Ef ég ætti að velja, þá vildi ég alltaf hafa Robbie Fowler frekar hjá Liverpool. Ég elska drenginn og ég eiginlega trúi þessu ekki. Þetta hlýtur að vera eitthvað gabb.
Sjá fréttina hér.

Enn fleiri atriði sem benda til þess að þú spilir WOW of mikið.

Á dögunum skrifaði ég um 40 atriði sem bentu til þess að maður spili World of Warcraft of mikið. Hér eru 20 til viðbótar.1. Þú sækir um vinnu. Þú veist ekki lögheimilið þitt, en þú manst hvar Hearthstoninn þinn er.2. Þú nennir ekki að tala við yfirmann þinn, því það er ekkert upphrópunarmerki fyrir ofan hann.3. Þú ferð á nauðungaruppboð í leit að sverði.4. Þú pantar á netinu þá hluti sem eru með bláum eða fjólubláum texta.5. Þú ferð mjög oft að dansa uppúr þurru.6. Þú setur á þig kórónu þegar þú ert að vinna með einhverjum.7. Þú öskrar LEEEROOOOOOOY JENKINS uppúr þurru8. Þú setur smáauglýsingu í Fréttablaðið sem hljóðar: WTS [Leather Jacket] 4g msg me.9. Þú setur auglýsingu á Einkamál.is sem hlóðar: LF3M S&M FEMALE PREF10. Þú getur ekki tekið að þér fleiri en 20 verkefni í einu.11. Þú skilur ekkert í því hvers vegna vatnsflöskurnar stackast ekki í íþróttatöskunni.12. Þú ferð út að hlaupa með lyklaborð með þér og ýtir á NumLock.13. Þú sérð tannhjól þegar þú ferð með puttan yfir "ON" takkan á tölvunni.14. Þú gengur um með nál og tvinna.15. Þú rífur upp hakann þegar þú sérð sjaldgæfa bergtegund.16. Þú ferð á saumastofu og biður saumakonurnar að traina þig í tailoring.17. Þú varst með úlfa- og kodokjöt í jólamatinn.18. Þú þarft að migrate-a á nýjan server og sendir tilkynningu um það til Hagstofunnar.19. Þú gafst kærustunni þinni peacebloom á konudaginn.20. Þú ferð inná lonelyplanet.com og leitar að leiðsögubók um Eastern Kingdoms.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband