Best og verst á árinu 2005 #1 - Íslensk tónlist

Um leið og ég óska vinum og vandamönnum gleðilegs árs, þá ætla ég að hefja yfirferð á árinu 2005. Næstu tvær vikur eða svo mun ég fara yfir það sem mér fannst vera best og verst á árinu 2005. Ég ætla að byrja á efni sem er mér mjög hugleikið - íslensk tónlist.
Best:Ampop - My DelusionsFrekar rólegt, melódískt, vandað og úthugsað popp þar sem bólar á breskum áhrifum. Talsvert hafa liðsmenn Ampop skipt um gír frá því fyrir þremur árum, þar sem þeir spiluðu raftónlist. Mæli hiklaust með þeim og þeir renna ljúflega á geislanum.
Hjálmar - Hljóðlega af stað og HjálmarÞó Hljóðlega af stað hafi verið gefin út í fyrra, þá lifði platan góðu lífi árið 2005. Frábær plata og fékk mig til að endurskoða afstöðu mína til reggítónlistar. Nýju plötuna hef ég ekki krufið til mergjar ennþá, en fyrstu viðbrögð eru mjög góð.
Sigur Rós - TakkÞó ég sé alveg á síðasta séns með spiladósir, klukkuspil, barnagælur og falsettusöng Sigur Rósar, þá verð ég að viðurkenna að Takk er prýðileg plata. Hún hitti betur í mark hjá mér en nafnlausa platan.
Ég - plata ársinsAlgjör snilld. Þrælskemmtileg og frumleg plata. Góð blanda af poppi, rokki og hreinni tilraunamennsku. Maður veit eiginlega aldrei hvað gerist næst. Textarnir hljóma fyrst eins og grín, en á bakvið eru miklar pælingar um lífið og tilveruna.
Baggalútur - Pabbi þarf að vinnaBaggalútsmenn eru síðustu ár búnir að stimpla sig inn sem úrvalsgrínarar. Einnig hafa þeir gefið út hin ýmsu dægurlög í jólabúningi frá því árið 2001. En á Pabbi þarf að vinna, þá þurfa þeir að takast á við ákveðið vandamál. Þegar fólk er hætt að hlægja að lögunum, þá þarf að hafa gaman af þeim. Það tekst að þessu sinni. Þrælgott.
Dr. Spock - Dr. PhilÞrælmagnað fönk-, djass-, diskó- og pönkmengað þungarokk frá hljómsveit sem skipuð er úrvalsher tónlistarmanna. Óttar Proppé er líka algjör snilldarsöngvari. Kannski ekki besti söngvari á landinu, en samt mesti töffarinn.
Rass - AndstaðaÞarna er Óttar Proppé aftur á ferð með frekar ófrumlegt og illa spilað pönk. En það þarf ekki allt að vera frumlegt. Pönk á að vera illa spilað, út úr takt og frekar hrátt. Textarnir eru auðvitað með grínívafi, en þó mjög pólitískir. Gaman að sjá pönk aftur.
Lights on the highway - Lights on the highwayÞar sem ég er mikill aðdáandi Alice in chains, þá var ég mjög feginn þegar ég heyrði áhrifin á Lights on the highway. Virkilega góð rokkplata, ekkert flóknara en það.
Annað gott á árinu:Emilíana TorriniMínusbarðiBenni Hemm HemmStórsveit Nix Noltes
Verst:
Skítamórall - Má ég sjáHöfundar texta á borð við ?Ég á gamlar myndir og geymi meira að segja nokkur gömul blöð hjá mér? bregðast ekki frekar enn fyrri daginn og snöggsjóða einhverskonar Einars Ágústslausts come-back. Þeir klekja út með textum eins og ?Hún tendraði ljósið? og ?Hvað væri lífið án þín, þú gefur mér tilgang og sýn?. Þetta er vont.
Ýmsir - JólaskrautAlveg finnst mér það hundleiðinlegt þegar sígild jólalög eru færð í einhverskonar sparibúning til þess eins að fá nokkrar krónur í kassann. Það er ekki hægt að segja að þetta sé tilraun til að fá unga fólkið til að hlusta á gömlu lögin, þar sem þau eru hvort eð er í spilun. Af öllum mönnum, þá er það Sveppi sem stelur senunni, en hann er hressastur allra á þessari plötu. Annars er þetta á botninum á ruslatunnunni.
Íslensku dívurnar - Frostrósir IIIAllt í lagi. Nr. 1 og 2 var í lagi, en þetta er nú orðið dálítið þreytt. Ekki er ég hissa á því að þetta verði síðustu frostrósirnar. Enginn efast um hæfileikana, en útkoman er frekar döpur og þreytt.
Nylon - Góðir hlutirÉg vorkenni nú eiginlega stelpunum í Nylon. Þær eru mjög vinnusamar og duglegar eru í sjálfu sér ekki að gera neitt rangt. Þær geta alveg sungið og dansað, en það er ekki málið. Fjöldaframleitt popp rétt fyrir jól hittir bara ekki í mark hjá mér. Lögin eru ekkert alslæm, en það er eitthvað ekki gott við þetta.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og tíu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband