15.8.2006 | 10:15
Búsetumót
Um helgina var ég á búsetumóti í Berufirði. Tilefnið var að um helgina síðastliðna voru liðin 100 ár frá því að langafi minn, Guðmundur Guðmundsson og langamma, Gyðríður Gísladóttir fluttu í kirkjubæinn Berufjörð í Berufirði frá Ánastöðum í Breiðdal.Mótið hófst á laugardeginum með göngu frá Ánastöðum í Breiðdal - yfir Berufjarðarskarð - að bænum Berufirði. Ég og pabbi slógumst í för og var gengið í einar 5-6 klukkustundir. Með í för var föngulegur hópur manna og hesta, sjálfssagt einir 40-50 á tveimur jafnfljótum og 5 hestar. Verð ég sérstaklega að hrósa elstu göngumönnum, Braga Gunnlaugssyni og Ásgeiri Hjálmarssyni (f. 1932), Óskari Gunnlaugssyni (f. 1938) og pabba mínum, Guðmundi Gunnlaugssyni (f. 1942). Þessir ágætu herramenn leiddu gönguna rösklega og voru með ýmsan fróðleik þess á milli.Þegar komið var að bænum var þar múgur og margmenni saman kominn til að fagna þessum tímamótum. Um kvöldið tók svo við hátíðardagskrá í stóru og miklu hátíðartjaldi. Þar var lesið uppúr bókum, farið með vísur og ljóð eftir Berfirðinga og sungið. Ég og Geiri vorum í einu söngteymi, en Jonni bróðir og Elvar sonur hans í hinu söngteyminu. Kalla þeir feðgar sig Krónufeðga, en sú lága upphæð sem þeir kenna sig við lýsir engan veginn þeim gæðum sem þeir eru prýddir á sviði tónlistar. Jonni bróðir er alveg frábær söngvari og Elvar sonur hans er alveg úrvals gítarleikari. Mér finnst að þeir ættu að heita allavega 500.000 krónu feðgar ef ekki meira. Hátindur kvöldsins var án efa lagið Gunnar Póstur, sem Haukur Morthens gerði svo frægt um árið. Þá sló Jonni fjórgangstakt við lagið og Gunnlaugur Bragi, náfrændi minn lék undir á harmonikku.Dagskrá kvöldsins lauk opinberlega kl. 22:00 um kvöldið, en inni í tjaldinu léku menn áfram af fingrum fram, töluvert frameftir nóttu.Dagskrá sunnudagsins hófst síðan kl. 12:00 á Berfirsku hangikjöti og uppstúf. Þetta var borið fram með rúgbrauði og rabarbarasafti. Enn var lesið upp úr bókum og farið með ljóð. Þá fékk yngsta kynslóðin að njóta sín í söng og leik í blálokin. Um 180 gestir voru á þessu móti þegar mest var og þykir mér það harla gott.Frábær helgi og skemmtilegt mót. Ég kvaddi fjörðin fagra með tárin í augunum.Myndir af viðburðum sumarsins, þ.á.m. búsetumótinu skal ég setja inn með kvöldinu.
Breytt 24.5.2007 kl. 15:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning