24.4.2006 | 11:18
Júdasarguðspjall og trúarbrögð
Nýfundið Júdasarguðspjall greinir frá því að Júdas hafi í raun ekki svikið Jesú af eigin rammleik. Samkvæmt guðspjallinu bað Jesú Júdas um að svíkja sig til að fullkomna sitt ævistarf og verða þannig ódauðlegur píslarvottur í mannkynssögunni. Þá er jafnvel spurning hvort að Jesú hafi ekki líka beðið Pétur um að afneita sér tvisvar. Er það von að maður spyrji sig?Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands hafði orð um það í prédikun sinni á páskunum að páskarnir væru brandari guðs. Hann sagði að guð hafi leikið á djöfulinn með því að beita bragði djöfulsins. Þannig hafi guð gert grín að djöflinum. Ég held að skýringin sé í raun einfaldari en þetta. Jesú Kristur var til og var mjög hæfileikaríkur og öflugur maður. Ég held að hann hafi lifað af krossfestinguna og einhver hafi aumkað sig yfir hann og leyst hann niður af krossinum, sem betur fer.Með orðum sínum staðfestir Karl það sem ég hef alltaf haldið fram. Okkar kristna trú er ekki eingyðingstrú. Þar trúa menn á Guð og Jesú sem góðu öflin. Eða eins og stendur í trúarjátningunni "Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn, sem getinn er af heilögum anda...situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða." Það eru semsagt tveir góðir guðir og einn illur, þ.e. djöfullinn.Það eru í raun bara gyðingar sem hafa verið staðfastir sinni Monothesísku hugmyndafræði um hið almáttuga afl. Þegar Jesú er sagður hafa dáið fyrir syndir mannana, þá byrja allir með hreinan skjöld. Kaþólska kirkjan sá þar leik á borði og gerði fólki kleift að kaupa sér syndaaflausn. Því meiri sem syndin var, því dýrara verði var aflausnin keypt. Þetta kom sér vel fyrir kaþólsku kirkjuna sem græddi þar með á tá og fingri.Hugmyndir Lúthers, Kalvíns og félaga voru á skjön við hugmyndir Kaþólikka. Þeir höfnuðu því að fólk þyrfti að kaupa sér syndaaflausn. Fyrirgefning syndanna, trú á heilagan anda, upprisu mannsins og eilíft líf komu þar í staðinn. Fyrirgefning í stað aflausnar. Þetta hentaði mjög vel fyrir konunga og ríki í Evrópu. Þessi hugmyndafræði færði vald kirkjunnar að miklu leyti til konunga og ríkisstjórna síðar meir.Fyrir mér er kristin trú einfaldlega of sveigjanleg til að hægt sé að taka mikið mark á henni. Trúarbrögð eiga ekki að vera sveigjanleg í grundvallaratriðum sínum. Þannig geta menn farið að túlka hlutina á sína vegu. Trúin finnst mér að eigi að vera siðareglur fólksins, en ekki kirkjunnar sem slíkrar. Á endanum eru það sóknarbörnin sem plægja jarðveginn, en ekki kirkjan sjálf.
Breytt 24.5.2007 kl. 15:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning