12.1.2006 | 14:49
DV: Sóðamálin í nýjar hæðir
Ég hef fylgst nokkuð grant með eftirmála fréttar DV um einhenta kennarann sem sagður var nauðga piltum.Í fyrsta lagi þá segir DV ekki í eiginlegum skilningi neitt ósatt, þegar maðurinn er sagður hafa brotið af sér. Með áherslu á orðið "sagður". Ef ég myndi nú taka uppá því að segja að kennarinn minn í grunnskóla hafi nauðgað mér, væri hann þá ekki sagður hafa brotið af sér. Tæknilega er það rétt. Málið snýst bara ekki um þetta.Þó fréttamennska af þessu tagi sé kannski freistandi fyrir þá sem hafa áhuga á að velta sér uppúr svokölluðum "sóðamálum", þá er þetta ekki í takt við það sem ég hef alltaf talið tilgang fjölmiðla. Ég hef nú stúderað fjölmiðlafræði og þannig er mín sýn á fjölmiðla (sér í lagi fréttir) fjórþætt:1. Fjórða lýðræðislega valdið.2. Skráning samtímasögunnar.3. Spegill samtímans, gjá inní fortíðina og jafnvel spá um framtíðina.4. Fræðsla og tilkynningaskylda."Hvað gerðist í dag og í gær og hvað gæti gerst á morgun?" er spurningin sem maður varpar óbeint fram þegar maður flettir dagblaði, horfir á kvöldfréttir eða skoðar fréttavefi á Netinu. Þessir miðlar eiga að svara því að mínu mati. Var einhver afbrotamaður sakfelldur? Hvernig fóru leikirnir í gær? Hvernig verður veðrið á morgun?Það er ekki smekklegt að birta upplýsingar um að fatlaður maður sé sakaður um afbrot, en að ekki sé ennþá víst hvort hann framdi það. Það er heldur ekki smekklegt að birta myndir af manni sem skaut annan mann til bana. Þetta hefur verið gert og ekkert hugsað um það að maðurinn eigi fjölskyldu, yngri systkini o.þ.h. Fjölskylda afbrotamanna á ekki að þurfa að lesa um þeirra gjörðir í fjölmiðlum. Það er hægt að fjalla um hina myrku hlið Íslands án þess að vera með ókurteisi, dónaskap og skítlegt eðli.Í viðtali við Kastljósið lýsir Jónas Kristjánsson, ritstjóri DV, því yfir að þeir segi umfram allt sannleikann og séu yfir siðareglur Blaðamannafélags Íslands hafnir. Þá er tvennt sem ég vildi gjarnan spyrja um:1. Hvað er sannleikur? Er það sannleikur ef ég segi að einhver hafi brotið á mér? Er það ekki meiri sannleikur ef fréttin er á þá leið að einhver sé dæmdur í héraðsdómi fyrir afbrot sem hann framdi á mér?2. Hver afhenti DV einhvern refsivönd fyrir hönd þjóðarinnar? Það gerði ég a.m.k. ekki.Ég hef hingað til verið mjög "liberal" gagnvart DV og hef talið að þeirra fréttamennska hafi verið svona jaðarfréttamennska, sem væri kannski nauðsynleg í flórunni. Nú hef ég kúvent skoðunum mínum og segi það og skrifa að Ísland geti vel verið án DV. Ég sakna þó blaðsins eins og það var um miðbik síðasta áratugs. Málefnalegt, óháð og metnaðarfullt dagblað með mikla áherslu á íþróttir.
Breytt 24.5.2007 kl. 15:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning